Kameljón uppskrift
Kameljón uppskrift
Hér er komin mjög hefðbundin lopapeysa sem þó býður upp á óendanlega möguleika í útfærslum eftir að hún hefur verið prjónuð. Nokkurs konar grunnur, eða strigi, til að skreyta að hjartans lyst (og list). Tilvalið verkefni fyrir byrjendur í prjóni sem langar að skarta litríku berustykki án þess að þurfa að kunna tví- eða þríbandaprjón. Slétt og brugðið nægir.
Í takt við fjölbreytileikann er uppskriftin bæði skrifuð neðan frá og upp (eins og hin hefðbundna lopapeysa) og ofan frá og niður, auk þess að vera bæði sýnd opin og lokuð.
Í lokin er berustykkið skreytt með útsaumi eða hekli, eftir smekk hvers og eins.
Hentar öllum kynjum.
Garn Grunnlitur: Double Saga frá Icewear garn (100g/100m)
Mynsturlitir: Saga Wool frá Icewear garn eða sambærilegt (50g/100m), gjarnan afgangar
Magn Grunnlitur: 580, 650 (720, 790, 860) 930, 1000 g
Prjónar 7 mm í meginfletina og 6 mm í stroffin. Athugið að aðlaga prjónastærð að prjónfestunni ef þörf krefur.
Prjónfesta í sléttu einlitu prjóni í hring: 14 lykkjur og 18 umferðir gera 10cm.
Stærðir 7 stærðir, yfirvídd: 85, 95 (105, 115, 125) 135, 145 cm